Golf

Efsti kylfingur á heims­lista á yfir höfði sér fjórar á­kærur

Aron Guðmundsson skrifar
Scottie Scheffler, efsti kylfingur á heimslista, hefur átt ansi erfiðan morgun. Hér er búið að taka af honum fangamynd eftir ansi ótrúlega atburðarás þar sem að Scheffler virti leiðbeiningar lögreglu á vettvangi banaslyss að vettugi. Scheffler á yfir höfði sér fjórar ákærur
Scottie Scheffler, efsti kylfingur á heimslista, hefur átt ansi erfiðan morgun. Hér er búið að taka af honum fangamynd eftir ansi ótrúlega atburðarás þar sem að Scheffler virti leiðbeiningar lögreglu á vettvangi banaslyss að vettugi. Scheffler á yfir höfði sér fjórar ákærur Vísir/Skjáskot

Kylfingurinn Scotti­e Schef­fler, efsti maður á heims­lista, á yfir höfði sér fjórar á­kærur í kjöl­far þess að hann var hand­tekinn á vett­vangi bana­slyss í morgun eftir að hafa virt lokanir lög­reglunnar að vettugi. Bana­slysið átti sér stað rétt hjá Val­halla vellinum í Ken­tuk­cy þar sem að PGA meistara­mótið í golfi er nú haldið.

Það er The Athletic sem að greinir frá en ákærurnar eru eftirfarandi:

  • Annars stigs líkamsárás á lögreglumann
  • Glæpsamleg hegðun af þriðju gráðu
  • Gáleysislegur akstur
  • Leiðbeiningar lögreglunnar virtar að vettugi

Scheffler átti að hefja annan hring sinn á PGA meistaramótinu núna rétt fyrir klukkan eitt en rástíma hans var hliðrað til. Scheffler er nú mættur aftur á Valhalla völlinn og er klár í að hefja annan hring sinn á PGA meistaramótinu.

Fyrr í morgun varð banaslys við Valhalla völlinn þar sem að PGA meistaramótið fer fram í þetta skipti

Banaslysið varð til þess að keppni dagsins var frestað um klukkustund. Mikil umferðarteppa myndaðist vegna slyssins og Scheffler reyndi að forðast teppuna og keyrði framhjá henni. Það var í óþökk lögreglumanna sem stöðvuðu hann, leiddu í handjárnum í burtu og fóru með hann á lögreglustöð.

„Lögreglumaðurinn öskraði á Scheffler og sagði honum að fara út úr bílnum. Þegar Scheffler steig út ýtti lögreglumaðurinn honum upp að bílnum að setti hann strax í handjárn. Hann situr nú í aftursæti lögreglubílsins,“ segir Jeff Darlington, fréttamaður á ESPN, á samfélagsmiðlinum X en hann varð vitni að atvikinu.

Schef­fler mætti til leiks á PGA meistaramótið í gær í góðu formi. Nýlega stóð hann uppi sem sigur­vegari Masters og alls staðið uppi sem sigur­vegari á fjórum mótum undan­farna tvo mánuði.

PGA-meistaramótið er í beinni á Stöð 2 Sport 4 alla helgina en bein útsending frá öðrum hring mótsins hefst klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport 4 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×